Lambakjöt með marengs og rjóma

Eitt af aðaleinkennum menningar er matur. Í raun er það svo að margir fræðimenn í menningarlæsi (e. intercultural learning) og samskiptum (e. intercultural communication) segja að lykillinn að menningu hvers lands sé matur og því vaða þeir beint á matarmarkaði eða á veitingarhús sem bjóða upp á þjóðlega rétti hverju sinni.

Margar þjóðir hafa strangar reglur um samsetningu matar. Sumstaðar tengist þetta trú en oft tengt því að það er hreinlega ekki gott fyrir fólk að blanda ákveðnum mat saman. Til dæmis borða Ítalir aldrei brauð með pasta, því það er ávísun á massíva garnastíflu. 

Þjóðverjar skjóta oft á sig snafs fyrir þunga máltíð til að greiða fyrir meltingunni.

Mjólkurvörum og kjöti er ekki blandað saman hjá gyðingum af trúarástæðum en þó eru margir næringaþerapistarnir á því að það er ekki gott fyrir meltinguna. 

Ég er svo heppin að bæði ferðast mikið og fá vini að utan í heimsókn. Svo á ég góðan kjarna vina og kunningja sem hafa flutt hingað og sest hér að. Eins og gefur að skilja eru umræðuefnin því oft óhefðbundin og gjarnan fær maður nýjan vinkil á hversdagslega hluti - eins og íslenskan mat.

Um daginn hitti ég nokkrar ítalskar vinkonur mínar sem höfðu miklar skoðanir á mat - hvað annað?!

Af virðingu við mig fóru þær í fyrstu mjög fínt í skoðanir sínar á íslenskum matarvenjum og réttum en um leið og þær urðu þess varar að ég er sjálf mjög gagnrýnin á það hvernig þessu er háttað hérlendis, losnaði aldeilis um málbeinið.

Hvernig skyldi þessu vera háttað hjá okkur Íslendingum? Ítölsku vinkonur mínar voru ekki lengi að koma með athugasemdir.

Ein sagðist finna fyrir því að vera sífellt hvött til að borða eitthvað óhollt. Til dæmis í veislum væri mikið um brauðtertur, súkkulaðitertur, hnallþórur og maregnstertur. Í þessum veislum væru yfirleitt engir ávextir til að nasla á, eða grænmeti til að grípa í, en hún hvött til þess í sífellu að fá sér smakk á rjómasúkkulaðimargengsmajónesi og helst þyrfti hún að smakka allar sortir á sama klukkutímanum. Með augnaráði sem minnti helst á Möggu móðu úr Elíasarbókunum spurði hún hvort ekki væri brjálað að gera í sjúkraflutningum á Íslandi..... 

Ein benti á að þegar við fáum okkur sunnudagslambalærið væri ekki aðeins lituð brún rjómasósa með, heldur væru kartöflurnar stráðar sykri.

Ég lýsti því fyrir þeim stolt hvernig við skellum smjöri og sykri saman á pönnu og hrærðum í þangað til tími væri kominn að bæta kartöflum útí sem yrðu karamelluhjúpaðar - njammm.......og ef hátíð væri í bæ skellti maður dass af rjóma til að fullkomna orgíuna.

Þær göptu á mig og sögðu að ekki væri furða að svo margir Íslendingar ættu í erfiðleikum með meltinguna, miðað við fjölda auglýsinga um meltingapillur sem væru í fjölmiðlum (og magnast upp fyrir hátíðarnar), því í raun værum við að borða lambalæri með marengs og rjóma.

Verði okkur að góðu! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðrún Hulda Eyþórsdóttir

Höfundur

Guðrún Hulda
Höfundur er mannfræðingur með alþjóðleg þjálfararéttindi í menningarlæsi og lætur allt um mannverur og samfélög þeirra sig varða.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 1061

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband