Til hvers eru kosningaskrifstofur?

Ég ákvað í morgun að eyða deginum í að kynna mér stefnumál flokkanna. Hef áður gert slíkt og stóð þá heimsókn á kosningaskrifstofu Sjálfstæðismanna upp úr. Það var ekki vegna þess að flokkurinn væri svo frábær eða með svo skemmtilega og áhugaverða stefnu heldur vegna afskiptaleysis frambjóðenda. Þeir höfðu greinilega engan áhuga á forvitnum og ráðvilltum kjósendum. Kannski eru atkvæði þeirra trygg og sjá þar af leiðandi ekki tilgang í að spreða orku og tíma í eitthvað pakk eins og mig og aðra kjósendur. 

Ég byrjaði daginn á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins. Þar var allt fullt af eldri konum með svuntur sem voru afskaplega elskulegar en því miður, ekki í framboði. Eini frambjóðandinn sem sá greinilega ástæðu til þess að mæta á skrifstofuna var Pétur Blöndal sem faldi sig á bak við tölvu og masaði í símann. Ég réðst því á kosningabæklingana í von um að finna eitthvað um stefnu flokksins. Ég hafði ekki erindi sem erfiði það eina sem ég fann voru bæklingar um frambjóðendur og listi yfir það sem þegar er búið að gera. Flokkurinn hafði eytt nokkrum línum í mjög stuttan og loðinn texta um hugsanlega framtíðarsýn.

Næst lá leiðin á skrifstofu Framsóknarflokksins. Um leið og ég gekk inn um dyrnar blasti við múgur og margmenni og mikið rætt og spekúlerað. Formaður flokksins gekk rakleiðis að okkur hjónum og tók í spaðann á okkur og bauð upp á kaffi. Við settumst niður og skoðuðum stefnumál flokksins sem eru vel framsett og skýrt að orði kveðið.

Samfylkingin var næsta fórnarlamb. Ég verð að segja að mér brá svolítið enda blasti við hópur af gömlum MH-ingum og núverandi frambjóðendum, syngjandi hástöfum eitthvað lag um Samfylkinguna. Mér leið eins og ég væri mætt á kennarasamkomu þar sem sungið er og klappað "áfram, áfram bílstjórinn". Fékk smá bjánahroll og maðurinn minn átti vægast sagt erfitt með sig en sat á stóra sínum. Settist niður og las þá bæklinga sem þar voru. Ágætisstefna en afar lítið af stefnumálum. Hins vegar ítarlegur bæklingur um stefnu flokksins í málefnum barna og ber að hrósa þeim fyrir það. Engin syngjandi frambjóðanda ræddi þó við okkur enda uppteknir að tala við hver annan.

Næst fórum við á skrifstofu Frjálslyndra. Okkur var strax boðið upp á kaffi og með því og fékk ég málefnahandbókina í hendurnar. Afar metnaðarfull handbók og vel fram sett. Magnús Þór kom strax og ræddi við okkur - sýndi áhuga á því að kjósendur væru þarna inni.

Ég hafði áður kynnt mér stefnumál Vinstri-Grænna og hafði eingöngu rekist á bæklinga sem kynna frambjóðendur og svo bók um umhverfismálin - afar metnaðarfullt. En ég fann samt ekkert um samgöngumál, velferðarmál, heilbrigðismál eða fjármál ríkisins. Þessi ferð átti að vera til að gefa þeim tækifæri til þess.  Ég gekk því inn á NASA og þar var tómt, engir frambjóðendur en okkur var nú samt boðið að vaska upp sem við afþökkuðum kurteisislega.

Eftir þessa ferð mína í dag er ljóst að hlutverk kosningaskrifstofa er afar óljós. Hjá langflestum er þetta samkundustaður fyrir frambjóðendur til að skemmta sér og þeir sem sauðast inn geta fengið sér kaffi og átt sig. Hjá einstaka  flokkum er áhugi fyrir því að það eru kjósendur sem veita þessu fólki umboð til að fara með völdin fyrir sig - og leggja líf og limi í hendur þeirra.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Guðrún Hulda Eyþórsdóttir

Höfundur

Guðrún Hulda
Höfundur er mannfræðingur með alþjóðleg þjálfararéttindi í menningarlæsi og lætur allt um mannverur og samfélög þeirra sig varða.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband