23.7.2014 | 04:22
Uppbyggileg samskipti um eldfim málefni
Frá því um miðjan þennan mánuð hef ég setið námskeið við Institute of intercultural communication við Reed college í Portland, Oregon. Keyrslan hefur verið mikil, dagarnir langir og mikil heimavinna. Kennararnir hér eru þeir sem hafa skrifað hvað mest og birt mest af ritrýndu efni í þessum fræðum á heimsvísu, auk þess sem þeir starfa við hin ýmsu stórfyrirtæki sem ráðgjafar í samskiptum á fjölmenningarlegum vinnustöðum.
Þessa vikuna er til að mynda einn virtasti fræðimaður á þessu sviði að kenna mér, en ég keypti eina af mörgum bókum hennar fyrir rúmlega tíu árum síðan og hafði efni hennar gríðarlega mikil áhrif á mig, faglega og persónulega.
Á meðan ég nýt hverrar mínútu hefur veran hér í skólanum tekið á. Hér er gerð sú krafa að maður skoði sjálfan sig og skilgreini til hlítar. Manni ber að skila inn greinagerðum um hvaða gildi maður stendur fyrir og af hverju. Hvaða samskiptastíl maður beitir og af hverju. Svo er maður settur inn í aðstæður, alveg grunlaus, sem ögra þessum gildum og taka gríðarlega á samskiptahæfni manns. Mér líður stundum eins og verið sé að rekja úr mér garnirnar.....
Við þetta bætist að heimssýn manns verður aðeins víðsýnni. Gúrúarnir sem kenndu mér saman í síðustu viku eru t.a.m. frá Egyptalandi annars vegar og frá Rússlandi og Úkraínu hins vegar. Þegar vélin var skotin niður yfir Úkraínu í sl. viku, líklega af aðskilnaðarsinnum Úkraínu, fórst litla frænka kennarans frá Egyptalandi. Það var skrýtin stund að upplifa hinn rússnesks/úkraínska kennara útskýra fyrir okkur nemunum stöðu mála og biðja okkur um einnar mínútu þögn í virðingarskyni við þá sem fórust með flugvélinni. Á meðan stóð hinn yndislegi kennari minn frá Egyptalandi fyrir framan okkur og tárin streymdu niður kinnarnar.
Þessi stund og vinátta þeirra tveggja þrátt fyrir allt það sem í gangi er í heiminum er svo falleg og hrein og laus við alla dómhörku. Málin voru rædd opinskátt í tímanum með kennurunum - án þess að gildishlaðinn orð féllu né að nokkur tæki sig til og læsi yfir öðrum pistilinn um það hvaða skoðun aðrir ættu að hafa á heimsins málum og málefnum. Hver fær að hafa sína skoðun í ró og næði og málin rædd af virðingu.
Einn samnemanda minna er frá Súdan. Hún er stjórnandi á spítala og í kjölfar þessa atviks fann hún greinilega fyrir nægilega miklu trausti til að ræða umskurð stúlkna. Maður fann greinilega fyrir því að andrúmsloftið þyngdist enda flestir með mjög sterkar skoðanir á þessum aðgerðum. Hún benti á, að þrátt fyrir að vera ekki fylgjandi þessum aðgerðum enda tilheyrir hún sjálf ekki þeim ættbálkum sem fara fram á þessa aðgerðir, hefðu foreldrar margra stúlknanna bent á að ef þær væru ekki umskornar þá vildi enginn maður úr þeirra röðum giftast þeim. Það þýddi aðeins hungursneyð og dauða fyrir stúlkurnar því vegna spennu milli ættbálka og minnihlutahópa í Súdan (ég hef ekki næga þekkingu til að útskýra hér) giftust þær ekki þvert á þá.
Lausnin felst því ekki, samkvæmt henni, að fordæma aðgerðirnar heldur að finna lausn til að stilla til friðar í Súdan og auka möguleika karla og kvenna til læsis og uppýsingar.
Umræðurnar sem sköpuðust voru mjög uppbyggilegar. Enginn varð reiður, enginn varð æstur og flestir sem til máls tóku ræddu af yfirvegun og virðingu um stöðu mála í Súdan og hvernig hægt væri að ræða eldfim málefni án leiðinda eða yfirgangs - hver heldur sem hefur "rétt" fyrir sér.
Ég held að þessi virðingarverðu samskiptahættir séu það verðmætasta sem ég mun taka með mér heim til Íslands. Vonandi ber mér gæfu til að viðhalda þeim um ókomna tíð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:26 | Facebook
Um bloggið
Guðrún Hulda Eyþórsdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það var gaman að lesa þetta. Haltu endilega áfram að blogga svona skemmtilega. Þetta er svo vel skrifað hjá þér líka fyrir utan innihaldið sem er umhugsunarvert.
Halldór Jónsson, 28.7.2014 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.