18.5.2015 | 12:14
Að nota land sem skammaryrði eru fordómar
Að undanförnu hafa áberandi einstaklingar í samfélaginu notað samfélag eða þjóð úti í heimi til samanburðar við Ísland eða sveitafélag á Íslandi í þeim tilgangi að taka þau niður.
Þessar samlíkingar eru í besta falli fordómafullar og bera merki, eins og fordómar gera, um fáfræði viðkomandi einstaklinga.
Þingmaðurinn segir Skagafjörð verða Sikiley norðursins og fjölmiðlamaðurinn líkir Íslandi við ríki í Afríku, Kongó.
Sikiley er eyja þar sem vill svo til að skipulög glæpastarfsemi var upphaflega mynduð sem kallast í daglegu máli Mafían. Sikiley, eða íbúar Sikileyjar, eru aftur á móti ekki Mafían. Með slíkri samlíkingu setur þingmaðurinn alla íbúa Sikileyjar undir sama hatt og segir að þeir stundi skipulagða glæpastarfsemi. Við eigum semsagt að ganga út frá því að allir íbúar eyjunnar séu með óhreint mjöl í pokahorninu, séu glæpamenn og níðingar sem kúgi og drepi aðra.
Til fróðleiks þá er Sikiley sneisafull af fjölskyldufólki sem hefur ekkert með þessi samtök að gera og vill alls ekki láta bendla sig við þau. Það að vera Sikileyingur jafngildir ekki því að vera glæpamaður.
Á sama hátt er þingmaðurinn að gefa í skyn að allir íbúar Skagafjarðar séu glæpamenn eða stundi skipulagða glæpastarfsemi. Eins og á Sikiley, býr alls konar fólk í Skagafirði eins og annarsstaðar og með eindæmum að setja stimpil á alla í einu sveitafélagi.
Snúum okkur að fordómum fjölmiðlamannsins.
Kongó er ríki í Afríku sem hefur, eins og svo mörg ríki í Afríku átt erfitt uppdráttar eftir níðinsverk hvítra Evrópumanna sem tóku landið, arðrændu það, neyddu ættbálka til fastrar búsetu og þvinguðu óvinaættbálka til að búa saman. Þegar nýlendutímabilinu lauk voru flest Afríkuríkin skilin eftir og þá oft búið að arðræna það sem hægt var að nýta. Eftir sátu íbúar og máttu byggja upp ríki með enga fyrirmynd af samfélagsgerð þjóðríkis aðra en þá sem nýlenduherrarnir höfðu skapað og sýnt fordæmi af, sem var og er að búa til elítu sem makar krókinn og íbúar landsins mega hirða þá brauðmola sem falla af veisluborði elítunnar.
Flestir íbúar Kongó þjást. Þeir eiga erfitt uppdráttar. Þeir búa við gamalkunnan ótta við stríðsherra og skæruhermenn með öllum þeim hryllingi sem því fylgir.
Ísland er ekki Kongó og það að nota Kongó sem skammaryrði til að taka Ísland niður er afar fordómarfullt gagnvart íbúum Kongó. Við getum fjallað um ástandið hér heima án þess að nota annað land eða landssvæði til að gera lítið úr okkur, eða stjórnsýslunni.
Ísland er gamalt nýlenduríki og ber þess enn merki.
Á undanförnum árum höfum við sem þjóð farið í naflaskoðun, enda varð efnahagshrun hér, rétt eins og í Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Grikklandi og svo mætti lengi telja. Við vorum ekki ein sem lentum í "hruninu". Árið 2008 markaði mjög stór tímamót hjá okkur sem þjóð þar sem við neyddumst til að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru en ekki eins og við vildum að þeir væru. Við erum jú gömul nýlenduþjóð. Sum okkar áttu ömmu og afa sem voru nánast þrælar í besta falli kúguð lágstétt. Við njótum þeirrar gæfu þó að hafa sögulegar heimildir og reynslu af landi og þjóð án þess að vera kúguð, við höfðum hér þing áður en Danir tóku við. Það hefur líklega hjálpað okkur við það að endurbyggja innri gerð samfélagsins. Við höfum að minnsta kosti skilning á því hvað lýðræði felur í sér en fyrir sumum þjóðum er hugtakið varla til í tungumáli þeirra.
Við eigum þó erfitt með að losa okkur við nýlendubraginn og koma á fót gagnvirku og gagnsæju lýðræði. Ég hef trú á því að með upplýstri umræðu takist komandi kynslóðum að koma á fót slíkri samfélagsgerð. En á meðan er faglegt og réttlát að við fjöllum um okkur og okkar vandamál án þess að nota aðrar þjóðir til að gera lítið úr þeim eða okkur.
27.10.2014 | 16:01
Fótósjoppuð á ströndinni: um margföld og mótsagnakennd skilaboð tísku og lífstíls blaða
Þau eru merkileg þessi tísku-kvenna-lífstíls tímarit og dálkar.
Forsíðuefni margar þessara blaða/dálka/tímarita blasta myndum af konum sem hafa losnað undan einhverskonar ofbeldi, oft af hálfu karla eða orðið fyrir miklum áföllum. Mér skilst að því sorglegra sem forsíðuefnið sé því fleiri eintök seljist. Konur sem fórnarlömb eru söluvarningur.
Þegar kíkt er svo á innihald þessara blaða upphefst svo mikill tvískinningur og mótsagnirnar standa ekki á sér:
Til dæmis má stundum finna í sama blaðinu umfjöllun um það að konur eigi að vera sterkar og stoltar af líkama sínum. Að þær eigi ekki að láta áhrif tískuheimsins taka sig niður.
Nokkrum blaðsíðum síðar eru sögur af konum sem eru miklu hamingjusamari eftir að hafa grennst.
Í lokin má svo finna uppskriftir af kökum og rjómasósum "af því að konur eiga það skilið að borða kökur og rjóma".......
Ekki má gleyma snyrtivörunum og umfjallanir um þær. Án þeirra getur maður nú ekki farið úr húsi eða eins og ein sagði "Ég fer ekki út með ruslið nema með uppsett hár og naglalakkaðar neglur". Sjálf mun ég líklega biðja um varalit á dánarbeði mínu - af því að maður lúkkar betur - held ég.
Svo má gjarnan finna einhverja umfjöllun um það að maður líti svo vel út án snyrtivara.....eitthvað sem heitir að vera náttúrulega fallegur.......er það þá eftir fótósjoppið og meiköppið?
Í sama blaði má lesa gagnrýni á tískustrauma og áhrif þeirra á sjálfsmynd kvenna, oftast að verið sé að ýta undir óheilbrigða og óraunhæfar kröfur tískuheimsins á neytendur sem hafi svo áhrif á heilbrigði fólks, sérstaklega ungra kvenna.
Á næstu síðu er auglýsing frá einhverjum tískurisanum þar sem mynd er af fótósjoppaðri fyrirsætu........Mig grunar reyndar að hlutirnir í kringum fyrirsætuna séu líka fótósjoppaðir, t.d. bílar og mótorhjól líta svakalega vel út á pappírnum...... Stundum liggja þær eins og hálfdauðar á jörðinni - kannski af því að fötin eiga að lúkka betur þannig?
Í lokin er það uppáhaldið mitt. Það er umfjöllun um snyrtivarning sem ENGIN má vera án og yfirleitt hefur það eitthvað með lýti að gera eins og appelsínuhúð, eða slappa húð, eða teygða húð eða slitna húð. Það er nefnilega abnormal að vera með svoleiðis. Þá á maður að fá sér allskonar krem og dútl sem á að taka þessi lýti í burtu. Ef það dugar ekki þá er eins gott að maður hraði sér til lýtarlæknis því annars getur maður ekki látið sjá sig í bikiníinu - eins og fyrirsögnin segir "vertu flott í sumar" og við hliðina er mynd af fótósjoppaðri fyrirsætu (eða stundum teiknimyndafígúru) eða eitthvað í þá áttina og gefur augljóslega til kynna að ef maður kaupir ekki eitthvað krem og gengur um fótósjoppaður á ströndinni þá er maður bara alls ekki flottur!
Hvað gerist þá?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2014 | 15:32
Lambakjöt með marengs og rjóma
Eitt af aðaleinkennum menningar er matur. Í raun er það svo að margir fræðimenn í menningarlæsi (e. intercultural learning) og samskiptum (e. intercultural communication) segja að lykillinn að menningu hvers lands sé matur og því vaða þeir beint á matarmarkaði eða á veitingarhús sem bjóða upp á þjóðlega rétti hverju sinni.
Margar þjóðir hafa strangar reglur um samsetningu matar. Sumstaðar tengist þetta trú en oft tengt því að það er hreinlega ekki gott fyrir fólk að blanda ákveðnum mat saman. Til dæmis borða Ítalir aldrei brauð með pasta, því það er ávísun á massíva garnastíflu.
Þjóðverjar skjóta oft á sig snafs fyrir þunga máltíð til að greiða fyrir meltingunni.
Mjólkurvörum og kjöti er ekki blandað saman hjá gyðingum af trúarástæðum en þó eru margir næringaþerapistarnir á því að það er ekki gott fyrir meltinguna.
Ég er svo heppin að bæði ferðast mikið og fá vini að utan í heimsókn. Svo á ég góðan kjarna vina og kunningja sem hafa flutt hingað og sest hér að. Eins og gefur að skilja eru umræðuefnin því oft óhefðbundin og gjarnan fær maður nýjan vinkil á hversdagslega hluti - eins og íslenskan mat.
Um daginn hitti ég nokkrar ítalskar vinkonur mínar sem höfðu miklar skoðanir á mat - hvað annað?!
Af virðingu við mig fóru þær í fyrstu mjög fínt í skoðanir sínar á íslenskum matarvenjum og réttum en um leið og þær urðu þess varar að ég er sjálf mjög gagnrýnin á það hvernig þessu er háttað hérlendis, losnaði aldeilis um málbeinið.
Hvernig skyldi þessu vera háttað hjá okkur Íslendingum? Ítölsku vinkonur mínar voru ekki lengi að koma með athugasemdir.
Ein sagðist finna fyrir því að vera sífellt hvött til að borða eitthvað óhollt. Til dæmis í veislum væri mikið um brauðtertur, súkkulaðitertur, hnallþórur og maregnstertur. Í þessum veislum væru yfirleitt engir ávextir til að nasla á, eða grænmeti til að grípa í, en hún hvött til þess í sífellu að fá sér smakk á rjómasúkkulaðimargengsmajónesi og helst þyrfti hún að smakka allar sortir á sama klukkutímanum. Með augnaráði sem minnti helst á Möggu móðu úr Elíasarbókunum spurði hún hvort ekki væri brjálað að gera í sjúkraflutningum á Íslandi.....
Ein benti á að þegar við fáum okkur sunnudagslambalærið væri ekki aðeins lituð brún rjómasósa með, heldur væru kartöflurnar stráðar sykri.
Ég lýsti því fyrir þeim stolt hvernig við skellum smjöri og sykri saman á pönnu og hrærðum í þangað til tími væri kominn að bæta kartöflum útí sem yrðu karamelluhjúpaðar - njammm.......og ef hátíð væri í bæ skellti maður dass af rjóma til að fullkomna orgíuna.
Þær göptu á mig og sögðu að ekki væri furða að svo margir Íslendingar ættu í erfiðleikum með meltinguna, miðað við fjölda auglýsinga um meltingapillur sem væru í fjölmiðlum (og magnast upp fyrir hátíðarnar), því í raun værum við að borða lambalæri með marengs og rjóma.
Verði okkur að góðu!
28.8.2014 | 13:00
Hver er óvinurinn?
Ég sá þetta myndband um daginn og hef mikið hugsað um það síðan. Ekki síst vegna þess að eldfimt ástand hefur verið á milli Palestínu og Ísraels í marga áratugi og nú í sumar hefur það hlotið mikla athygli - og sitt sýnist hverjum.
Myndbandið sýnir tvo karla í lest, gyðing og araba og er spenna milli þeirra. Engin yrt samskipti eiga sér stað en mikið af óyrtum þannig að spennan magnast eftir því sem líður á ferðina.
Þrátt fyrir að eiga sér ólíkan bakgrunn og tungumál, tekst þeim þó að gera sig skiljanlega, þannig að þegar sameiginleg ógn blasir við ná þeir að mynda samvinnu án þess að segja orð.
https://www.youtube.com/watch?v=BlS2cRB5f8o
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2014 | 13:18
Speglast fordómar í sjónprófi Wes Kim?
Í myndbandinu Vision Test eftir Wes Kim er ætlunin að sýna fram á ómeðvitaða fordóma og staðalímyndir sem fólk hefur - eða ekki. Myndbandið hefst á hefðbundnu sjónprófi en þróast fljótlega mat á fólki eftir kyni, trú
og húðlit.
Áhugaverðar umræður sköpuðust eftir að ég horfði á myndbandið með hóp af mannfræðingum og interkulturalistum - sem sjálfir voru af ýmsum uppruna.
Þar sem við vorum komin ansi djúpt í þessi fræði fyrir spannst umræðan um það af hvaða þjóðarbroti eða húðlit raddirnar í myndbandinu voru. Augljóslega er ekki hægt að gefa sér það þar sem fólk temur sér misjafnt tjáningarform, misjafna raddbeitingu og orðalag eftir hvar það ólst upp.
Ég hvet ykkur til að skoða myndbandið - það hefur ratað á nokkrar kvikmyndahátíðir og vekur fólk jafnan til umhugsunar.
23.7.2014 | 04:22
Uppbyggileg samskipti um eldfim málefni
Frá því um miðjan þennan mánuð hef ég setið námskeið við Institute of intercultural communication við Reed college í Portland, Oregon. Keyrslan hefur verið mikil, dagarnir langir og mikil heimavinna. Kennararnir hér eru þeir sem hafa skrifað hvað mest og birt mest af ritrýndu efni í þessum fræðum á heimsvísu, auk þess sem þeir starfa við hin ýmsu stórfyrirtæki sem ráðgjafar í samskiptum á fjölmenningarlegum vinnustöðum.
Þessa vikuna er til að mynda einn virtasti fræðimaður á þessu sviði að kenna mér, en ég keypti eina af mörgum bókum hennar fyrir rúmlega tíu árum síðan og hafði efni hennar gríðarlega mikil áhrif á mig, faglega og persónulega.
Á meðan ég nýt hverrar mínútu hefur veran hér í skólanum tekið á. Hér er gerð sú krafa að maður skoði sjálfan sig og skilgreini til hlítar. Manni ber að skila inn greinagerðum um hvaða gildi maður stendur fyrir og af hverju. Hvaða samskiptastíl maður beitir og af hverju. Svo er maður settur inn í aðstæður, alveg grunlaus, sem ögra þessum gildum og taka gríðarlega á samskiptahæfni manns. Mér líður stundum eins og verið sé að rekja úr mér garnirnar.....
Við þetta bætist að heimssýn manns verður aðeins víðsýnni. Gúrúarnir sem kenndu mér saman í síðustu viku eru t.a.m. frá Egyptalandi annars vegar og frá Rússlandi og Úkraínu hins vegar. Þegar vélin var skotin niður yfir Úkraínu í sl. viku, líklega af aðskilnaðarsinnum Úkraínu, fórst litla frænka kennarans frá Egyptalandi. Það var skrýtin stund að upplifa hinn rússnesks/úkraínska kennara útskýra fyrir okkur nemunum stöðu mála og biðja okkur um einnar mínútu þögn í virðingarskyni við þá sem fórust með flugvélinni. Á meðan stóð hinn yndislegi kennari minn frá Egyptalandi fyrir framan okkur og tárin streymdu niður kinnarnar.
Þessi stund og vinátta þeirra tveggja þrátt fyrir allt það sem í gangi er í heiminum er svo falleg og hrein og laus við alla dómhörku. Málin voru rædd opinskátt í tímanum með kennurunum - án þess að gildishlaðinn orð féllu né að nokkur tæki sig til og læsi yfir öðrum pistilinn um það hvaða skoðun aðrir ættu að hafa á heimsins málum og málefnum. Hver fær að hafa sína skoðun í ró og næði og málin rædd af virðingu.
Einn samnemanda minna er frá Súdan. Hún er stjórnandi á spítala og í kjölfar þessa atviks fann hún greinilega fyrir nægilega miklu trausti til að ræða umskurð stúlkna. Maður fann greinilega fyrir því að andrúmsloftið þyngdist enda flestir með mjög sterkar skoðanir á þessum aðgerðum. Hún benti á, að þrátt fyrir að vera ekki fylgjandi þessum aðgerðum enda tilheyrir hún sjálf ekki þeim ættbálkum sem fara fram á þessa aðgerðir, hefðu foreldrar margra stúlknanna bent á að ef þær væru ekki umskornar þá vildi enginn maður úr þeirra röðum giftast þeim. Það þýddi aðeins hungursneyð og dauða fyrir stúlkurnar því vegna spennu milli ættbálka og minnihlutahópa í Súdan (ég hef ekki næga þekkingu til að útskýra hér) giftust þær ekki þvert á þá.
Lausnin felst því ekki, samkvæmt henni, að fordæma aðgerðirnar heldur að finna lausn til að stilla til friðar í Súdan og auka möguleika karla og kvenna til læsis og uppýsingar.
Umræðurnar sem sköpuðust voru mjög uppbyggilegar. Enginn varð reiður, enginn varð æstur og flestir sem til máls tóku ræddu af yfirvegun og virðingu um stöðu mála í Súdan og hvernig hægt væri að ræða eldfim málefni án leiðinda eða yfirgangs - hver heldur sem hefur "rétt" fyrir sér.
Ég held að þessi virðingarverðu samskiptahættir séu það verðmætasta sem ég mun taka með mér heim til Íslands. Vonandi ber mér gæfu til að viðhalda þeim um ókomna tíð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.7.2014 | 13:25
Nokkur orð um micro aggressions
Er komin aftur eftir 5 ára hlé - eða svo. Stundum er lífið bara þannig að maður þarf alla orku til að taka til heima hjá sér - ef hægt er að orða það þannig. Nú er svo komið að ég á til hellingsefni til að deila með ykkur og hlakka til að lesa um hvað ykkur finnst. Þessi pistill hér er um micro aggressions, fyrirbæri sem mikið er rætt um erlendis en lítið verið fjallað um hér. Að mínu mati á það fullt erindi við Íslendinga eins og aðrar þjóðir. Ég þýði hugtakið sem ördómar - en það er ekkert heilagt og þið megið gjarnan koma með tillögur að þýðingu
Micro aggressions, er ómeðvituð særandi framkoma sem einkennist af vanþekkingu og ónærgætni í samskiptum. Slík framkoma lýsir sér með frösum, hegðun eða líkamstjáningu sem getur tilkynna að sá sem fyrir þeim verður, sé á einhvern hátt minni manneskja, sem nýtur minni virðingar og sá sem sýnir þessa framkomu. Stundum byggist hún á tilhneigingu til að aðgreina sig frá manneskjunni sem um ræðir.
Þessi framkoma, sem kalla má ördóma, er ómeðvituð enda byggist hún ekki á hatri eða heift líkt og fordómar. Viðkomandi ætlar því oft ekki að vera meiðandi og áttar sig ekki á því fyrr en á það er bent - og verður oft miður sín. Það er þó merkilegt til þess að hugsa að stundum hefur fólk gert athugasemdir við ördómana en fengið þær athugasemdir að um grín hafi verið að ræða. En grín hefur mörk því grín hættir að vera grín þegar það særir aðra. Margir þeirra sem eru með fordóma og/eða ördóma hafa reynt að réttlæta eigin framkomu með því að telja fram vini sem eru af erlendum uppruna eða tilheyra öðru trúfélagi. Hver sem er getur sýnt slíka framkomu, hvernig sem vina- eða ættingjahópurinn er samansettur. Það er því ekki afsökun fyrir fordómum að eiga vini sem fordómarnir beinast gegn.
Þeir sem vinna í alþjóðlegu umhverfi eða í samskiptum eru fljótir að taka eftir þessari hegðun. Ísland hefur á síðastliðnum árum orðið virkara í alþjóðaumhverfinu og því meðvitaðra um aðra menningarheima. En hugarfarsbreytingar taka tíma og nú er orðið brýn þörf að fá umræðu um þessi mál hérlendis. Íslendingar sem lengi vel hafa búið í frekar einsleitu samfélagi láta ýmislegt flakka í formi gríns eða gera jafnvel athugasemdir við fólk sem fellur ekki í rétta formið.
Það gefur augaleið að með fjölbreyttara samfélagi þurfum við að taka meira tillit og gæta orða okkar í samskiptum við fólk utan okkar innsta vina- og fjölskylduhrings.
Hér fyrir neðan eru fleygar ördómafullar setningar:
Þegar karlar kalla konur kerlingar
Ég pældi ekkert í því að þú værir frá Kína, fyrir mér ertu eðlilegur
Ég hélt að allir blökkumenn væru góðir í körfubolta
Þið hvíta fólkið lítið allt eins út
Þú hleypur eins og stelpa
Sagt við íslenskan strák sem er dökkur á hörund Rosalega talarðu góða íslensku"
Ertu hommi? Þú ert svo hommalegur. Ég hef samt ekkert á móti hommum
- Horft er á einhvern upp og niður með fyrirlitningarsvip
- Forðast að fara í lyftu með aðila sem klæðir sig öðruvísi eða með annan hörundslit en þú
Flest öll höfum við sýnt ördóma á lífsleiðinni og vafalaust gætu sum okkar fyllt heila bók með sögum um slík atvik. Það þýðir þó ekki að við séum vitlaus eða illa innrætt, heldur að við höfum ekki hugsað útí þetta. Tilgangur þessara skrifa er því að vekja athygli og vonandi umræðu í von um aukna meðvitund um þetta málefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2010 | 21:41
Er háskólamenntað vinnuafl hinir nýju vinnuþrælar vinnumarkaðarins?
Ég velti þessu fyrir mér eftir að hafa lesið bók eftir Barböru Ehrenreich, konu sem hefur skrifað nokkrar bækur eftir að hafa unnið "undercover" við hin ýmsu störf. Barbara hefur skrifað nokkrar bækur sem fjalla um stöðu fólks á vinnumarkaði.
Í "den" var það þannig að menntun var máttur og þeir sem nutu slíkra forréttinda að geta menntað sig hoppuðu upp um hin huglægu stéttarþrep íslensks samfélags. Í "dentid" var það nokkurnveginn þannig að fólk sem útskrifaðist með háskólagráður gekk nánast inn í stöður hjá hinu opinbera, en náttúrulega aðeins þeir sem voru flokkstengdir gátu svo unnið sig upp - eitthvað sem enn er við lýði í dag. Ég er ekki að segja að það sé eðlilegt að ganga inn í störf bara af því að fólk er með tiltekna menntun. Hæfnin og færnin þarf einnig að vera til staðar, til viðbótar við þekkinguna.
Nú er svo komið að mér finnst íslenskur vinnumarkaður líkjast æ meir þeim vinnumarkaði er ég steig aðeins inn á sumar og haust 2001 í New York - eftir að netbólan sprakk og fyrir og eftir árásina þann 11. september. Háskólamenntaðir gátu fengið skrifstofuvinnu á lágum launum, litlum "benefits", þurftu að vinna langan vinnudag - helst 10 tíma en fengu aðeins greitt fyrir 8 því hinir tveir tímarnir voru aðeins tilkomnir vegna þess að þeir "réðu" ekki við vinnuálagið og þurftu auka tíma til að klára vinnu sína.
Það mynduðust því bæði "blue collar sweatshops" og "white collar sweatshops".
Af samtölum við vini mína að dæma sem búa hér á landi og vinna fyrir fyrirtæki á samkeppnismarkaði er svipað upp á teningnum og í BNA. Ég er þó ekki frá því að þeir sem hafi það best séu iðnaðarmenn og er það gott mál.
Ég hef samt sem áður áhyggjur af þeirri þróun sem á sér stað á vinnumarkaði að fólk sem hefur lagt nokkur ár að baki í sérhæft nám og hefur tekið hin hræðilegu LÍN lán til þess að hafa tök á því að sérhæfa sig, ætli að láta koma svona fram við sig án þess að spyrna við fótum? Ég hef satt að segja miklar áhyggjur af því að svo verði raunin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2009 | 13:14
Campari auglýsingar í tónlistarmyndböndum
Ég er svo heppin að þegar ég drattast í ræktina og hleyp eins og hamstur í hjóli er mér boðið upp á að horfa á tónlistarmyndbönd, t.d. frá NOVA TV.
NOVA TV er yfirleitt með vinsælustu og heitustu myndböndin í sýningu og eru þau vafalítið mjög áhugaverð.
Myndbönd við tvö áhugaverð og vinsæl lög eru Campari auglýsinar - ég held reyndar að eitt myndbandið frá Black eyed peas sé í raun fyrst og fremst auglýsing enda lagið frekar slakt þannig lagað séð - þrátt fyrir vinsældir.
Á meðan ég gæti pirrað mig yfir þessu enda með ungling á viðkvæmum mótunarárum sem glápir á þetta daginn út og inn gleðst ég yfir því að hér er verið að auglýsa ógeðsdrykkinn Campari.
Þeir sem hafa orðið svo óheppnir að hafa fyrir slysni smakkað eyrnarmerg vita nákvæmlega hvað ég er að tala um hér.
Ef þessar auglýsingar - faldar í tónlistarmyndböndum - verða til þess að unglingurinn minn ákveður að það sé KÚL að smakka Campari mun hann að öllum líkindum láta af öllum draumum um áfengisdrykkju lönd og leið enda - hver vill drekka eyrnarmerg OG borga fyrir það????
9.1.2009 | 14:00
Er Alþingi úrelt stofnun? Er ekki rétt að setja stefnumiðað árangursmat á þingmenn?
Á tímum sem þessum vakna upp margar spurningar um innri gerð (strúktúr) stofnana. Oft er farið út í að endurskipuleggja fyrirkomulag minni stofnanna en til er ein stofnun sem hefur ekki mér vitanlega farið í úttekt með rekstur og skilvirkni vinnuferla að leiðarljósi. Að auki hefur Alþingi fjarlægst almenningi, fólkinu í landinu þar sem tungumálið er annað og aðgangur að upplýsingum er takmarkaður.
Sú stofnun er að sjálfsögðu Alþingi sem að mínu mati er úrelt þar sem hún er kerfi sem framleiðir af sér fleiri kerfi allt sem hannað er innan þessarar stofnunar byggir á kerfislægri hugsun. Ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að á Alþingi hafa of margir lögfræðingar verið við völd og haft áhrif á kostnað skilvirkni verkferla, árangurs og eftirlits. Já Alþingi skortir eftirlit.
Mér hefur fundist sem lögfræðingar séu að mestu leyti kerfisfólk, fólk sem tekur að sér verkefni og hannar þau þannig að þau komist fyrir innan ramma sem þau sjálf hafa skapað og veitt lögum sjálfstætt líf......"innan ramma laganna" eins og lögin séu eitthvað óbreytanlegt apparat (kerfi). Einhverja hluta vegna virðist Alþingi vera eins og félagsheimili fyrir lögfræðinga....það er að minnsta kosti alltof mikið af þeim (annars ólöstuðum) á kostnað annars fólks með góða þekkingu og menntun.
Alþingi þarfnast sveigjanleika svo hægt sé að vinna lýðræðislega. Mér hefur fundist sem fólkið sem vinnur inn á Alþingi og kallast þingmenn og ráðherrar, hafi eingöngu sína og flokkræðislega hagsmuni að gæta á kostnað þjóðarinnar.
Sumir flokksgæðingar stjórnmálaaflanna skilgreina sig sem flokkur en ekki hluti af þjóð....."Við ......menn viljum að bla bla bla".
En aftur að Alþingi. Til að rökstyðja hið ólýðræðislega vinnulag sem viðgengst á Alþingi er ekki kosið eftir gæði frumvarpa heldur eftir þvi hverjir smíða frumvörpin og er þá eins og einhverskonar vinsældarkosning á grunnskólastigi fari fram. Allir þeir sem eru vinir X og X þeir segja JÁ við frumvarpinu en aðrir segja NEI eða sitja hjá.
Þeir sem eru með mér í liði kjósa það sem ég vil og eru ALLTAF á móti leiðinlega genginu. Þeir sem eru í stjórnarmeirihluta ná því sínum málum í gegn af því að þeir eru fleiri en hinir og skiptir þá engu hvort frumvarpið var samið með hagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi eður ei.
Þetta verður varla hallærislegra, barnalegra og ekki síst ólýðræðislegra. En víst er að einhverjum kerfisköllum finnst að þetta eigi bara að vera svona bara af því að þannig hefur það alltaf verið.
Vinnuferli Alþingis verður svo að teljast afskaplega afdankað og úrelt. Stofnaðir eru fundir og nefndir um öll möguleg mál þar sem hver og einn getur blaðrað út í hið óendanlega á kostnað fólksins í landinu. Því meira kaffi því meira blaður og því minna verður úr verki.
Sérfræðingar eru kallaðir til að meta hitt og þetta. Hending ef þessir sérfræðingar eru ekki í flokknum. Oft er þó ekki hlustað á neitt svona sérfræðingatal heldur er tilfinning, vinavæðing, ættarklíkur og eiginhagsmunir látnir ráða för - ja það er að segja ef einhver niðurstaða fæst.
Það vill því miður stundum vera sem málin týnist í kerfinu þar sem engin stjórn er á kerfinu.....það er engin sem fylgist með því að hlutir séu gerðir, tímastjórnun er tilviljanakennd, endurmenntun/símenntun alþingismanna er takmörkuð, þingmenn sitja í nefndum sem fjalla um mál sem þeir hafa engan grunn til að fjalla um, árangursmat þeirra er ekkert (þeir skýla sér á bak við kosningar en telja ekki upp þau verk sem þeir hafa unnið að og klárað) og síðast en ekki síst virðast þeir sjálfir halda að þeir sem eru lögfræðimenntaðir hafi þekkingu á öllum sviðum.
Svo er treyst á það að maður kjósi eftir því sem auglýsingarnar eru sætari, fallegri, árunni sem kemur frá þeim og þeirri tilfinningu sem brýst út hjá manni þegar maður hittir þetta fólk. Áþreifanlegur mælikvarði er nefnilega ekki til staðar.
Svona eins og að ráða manneskju í vinnu út frá fötum, viðmóti og sætleika en ekki út frá ferilskrá sem búið er að fá staðfesta.
Að mínu mati þarf að hafa hlutlausa ópólitíska stjórnendur á Alþingi sem setja tímaramma, úthluta verkefnum og ýta á eftir því að hlutirnir séu framkvæmdir á tilsettum tíma.
Svo þarf að setja á fót Stefnumiðað árangursmat á Alþingi.
Að lokum þarf virka vefsíðu þar sem fólk sér hvaða mál eru til umfjöllunar (á mannamáli) og í hvaða farvegi þau eru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Guðrún Hulda Eyþórsdóttir
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar